Ingi Tómasson

Hafnarfjörður


Leave a comment

Umhverfið í forgang.

Fjarðarpósturinn 29. sept. 2017.

Umhverfið

Umhverfið er okkur öllum hugleikið. Flest viljum við hafa hreint og snyrtilegt í námunda við okkar nánasta umhverfi og á þeim stöðum sem við förum til að njóta útivistar og snertingu við náttúruna. Það er ekkert sjálfgefið að finna hreint og tært umhverfi eins og t.d. í upplandi Hafnarfjarðar þar sem margir hafa lagt hönd á plóg með bættu aðgengi að náttúrperlum upplandsins ásamt því að auka vitund almennings að bættri umgengni um náttúruna.

Iðnaðarsvæðin

Frá því að undirritaður og Rósa Guðbjartsdóttir lögðum fram  tillögu í ágúst árið 2010 í skipulags- og byggingarráði um „Átak í hreinsun iðnaðarsvæða á Hraunum og Hellnahraunum.“ hefur verið farið í hreinsunarátak á iðnaðarsvæðum bæjarins á hverju ári til þessa, og nú er hreinsað til á iðnaðarsvæðum bæjarins dagana 15. september til 6. október. Það varðar okkur öll að umhverfið sé með þeim hætti að okkur líði vel hvar sem við erum stödd, það á jafnt við um upplandið, útivistarsvæðin og íbúðar- og iðnaðarhverfin. Það er langt í land með að mörg  fyrirtæki og einstaklingar sem eiga athafna- og iðnaðarlóðir séu meðvitaðir um mikilvægi þess að setja umhverfið í forgang. Vissulega eru mörg fyrirtæki til fyrirmyndar í umhverfismálum en hin sem lítinn skilning hafa á mikilvægi þess að hafa snyrtilegt við sitt nánasta umhverfi skyggja á það sem vel er gert.

Hagur allra

Hafnarfjarðarbær hefur aukið verulega fjármagn til umhverfismála og stefnt er á að gefa betur í enda næg verkefni í þeim málaflokki. Íbúar sem eru langflestir til fyrirmyndar í þessum málum tóku virkan þátt í hreinsunarátaki sl. vor, og nú er einblínt á iðnaðarsvæðin. Það er hagur allra að umhverfið sé aðlaðandi, að við öll göngum vel um bæinn og náttúruna, iðnaðar- og þjónustuhverfin eru engin undantekning frá því. Ég hvet forsvarsmenn fyrirtækja og lóðarhafa á iðnaðarsvæðum bæjarins að taka virkann þátt í umhverfisátakinu sem nú stendur yfir.


Leave a comment

Skipulag Fornubúða 5.

Fjarðarpósturinn 21. sept. 2017.

Fornubúðir 5

Fulltrúar minnihlutans í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar (SBH), þau Júlíus Andri Þórðarson, VG og Eva Lín Vilhjálmsdóttir, Samfylkingunni (S) skrifa grein í Fjarðarpóstinn undir heitinu „Skipulagsslys í uppsiglingu við Flensborgarhöfn?“  Þar lýsa þau yfir að núverandi tillaga verði ekki samþykkt af minnihlutanum.

Skipulagsferlið

Haldið skal til haga að fjórar tillögur um útlit byggingarinnar hafa verið kynntar í SBH og hafnarstjórn. Fyrsta tillagan var kynnt þann 23. ágúst 2016, á þeim fundi sátu fyrir hönd minnihlutans Júlíus Andri Þórðarson, VG og Ófeigur Friðriksson, S. Á þeim fundi var fyrst kynnt uppbygging vegna Hafró að Fornubúðum 5, kom fram að byggingin yrði 5-6 hæðir. Allir fulltrúar, þ.m.t. fulltrúar minnihlutans, tóku jákvætt í erindið. Næst kom málið á dagskrá SBH þann 24. jan. sl. þar sátu fyrir hönd minnihlutans, Júlíus Andri Þórðarson, VG og Óskar Steinn Ómarsson, S. Lögð var fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu ásamt útlitsteikningum sem gáfu mynd af því sem þarna gæti komið. Gert var ráð fyrir 5 hæðum, hámarkshæð og byggingarmagn tilgreint. SBH þ.m.t. fulltrúar minnihlutans samþykktu að deiliskipulagsbreytingin yrði auglýst. Þann 25. apríl sl. var sama tillaga á dagskrá SBH. Þar sátu fyrir hönd minnihlutans þau Júlíus Andri Þórðarson, VG og Eva Lín Vilhjálmsdóttir, S. Ein athugasemd hafði borist og samþykktu allir fulltrúar SBH umsögn skipulagsfulltrúa og fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fornubúða 5. Lagt var til að  bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti breytt deiliskipulag. Samkvæmt því sem hér er rakið hefur ríkt full samstaða um skipulagsbreytinguna í SBH. Þriðja tillagan að útliti, sú sama og sýnd með áðurnefndri grein var kynnt í SBH þann 24.8. sl. Óskað var eftir breyttri útfærslu á byggingunni og var fjórða tillagan kynnt SBH þann 19.9. sl. Aukið uppbrot á byggingunni er frá fyrri tillögu og hámarkshæð 1,2 metrum undir samþykktu deiliskipulagi.

Ábyrg afstaða?

Það er e.t.v. til of mikils ætlast af fulltrúum minnihlutans að taka ábyrga afstöðu sem kjörnir fulltrúar, en þegar sömu fulltrúar eru búnir að taka jákvætt í og samþykkja í öllum ferli skipulagsins þar sem teikningar eru lagðar fram til skýringa verður að segjast eins og er að greinarskrif þeirra er í hrópandi ósamræmi við aðkomu minnihlutans í SBH að málinu. Feril málsins má sjá í fundargerðum SBH á heimasíðu Hafnarfjarðar.


Leave a comment

Skarðshlíð, samspil skipulags- og umhverfissjónarmiða.

Fjarðarfréttir 22. júní 2017.

Á næstu dögum verður auglýst úthlutun á sérbýlislóðum í Skarðshlíð, lóðirnar sem fara í úthlutun eru undir einbýli og parhús, einnig verður auglýst eftir tilboðum í lóðir sem lögaðilar einir geta sótt um samkvæmt almennum reglum um úthlutun lóða og sölu byggingarréttar. Alls eru þetta um 160 sérbýli þar af eru fjórar parhúsalóðir ætlaðar undir sambýli. Stutt er í að framkvæmdir við fjölbýlishúsin í Skarðshlíð hefjist, samgöngur við hverfið verða betri með tilkomu tengingar Ásvallabrautar/Ásbrautar við Krýsuvíkurveg, mislægum gatnamótum við Reykjanesbraut og væntanlegri Ásvallabraut, auk þess sem gert er ráð fyrir að Borgarlínan tengist Vallarhverfinu.skarðshl-3

Vistvæn nálgun.

Skipulag Skarðshlíðar var tekið til endurskoðunar og breytt verulega til samræmis kröfu um minna sérbýli og vistvænt umhverfi. Helstu nýmæli í skipulaginu er að horfið er frá því að hvert og eitt hús sé með sínar sorptunnur, þess í stað eru djúpgámar staðsettir í vistgötum þar sem lögð er áhersla á flokkun sorps. Byggingarform eru brotin upp, garðar snúa til suðurs og víða eru þök hugsuð sem garðar og útirými. Áhersla er lögð á stíganet fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Nýmæli í skipulagi á Íslandi er að finna í skipulagi Skarðshlíðar sem er ákvæði um vistgötur þar sem vegfarandinn er settur í forgang. Með skipulaginu fylgir áhugaverð skýrsla frá PRS Ráðgjöf, Vistgötur: Yfirlit um ávinning og stöðu þekkingar.

Einstök náttúra.

Fyrir utan að skipulag Skarðhlíðar sé sérstaklega sniðið að landslaginu og sé í góðu skjóli fyrir norðan- og austanáttum þá er skipulagið hannað til að allir íbúar geti notið sólar á móti suðri og útisvæði verða fjölbreytt leik-, athafnar og áningarsvæði. Handan við hæðina er að finna eina mesta útivistarparadís landsins, uppland Hafnarfjarðar. Fyrir verðandi íbúa Skarðhlíðar sem og okkur Hafnfirðinga eru það forréttindi að hafa í göngufæri náttúruperlur upplandsins. Skarðshlíðin er góður kostur fyrir þá sem kjósa vistvænan lífstíl og vilja njóta þess besta sem náttúra Íslands hefur upp á að bjóða.


Leave a comment

Mikilvægar samgönguúrbætur á höfuðborgarsvæðinu.

Mbl. 15. júní 2017. Rósa Guðbjartsdottir og Ingi Tómasson.

Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið samstiga undanfarin ár í að vinna að innleiðingu Borgarlínu í aðalskipulag sveitarfélaganna. Borgarlínan er í dag fyrst og fremst samkomulag um samgönguás í gegnum höfuðborgarsvæðið, það er, hvar tryggja beri greiðustu leiðina í gegnum svæðið svo sveitarfélögin geti gert ráð fyrir því í skipulagi og uppbyggingu innan sinna bæjarmarka. Borgarlínan er að svo stöddu skipulagsmál til að vinna eftir til framtíðar en leysir ekki umferðarvandann sem víða blasir við á höfuðborgarsvæðinu. Greiður samgönguás, til dæmis með forgangsakreinum fyrir almenningssamgöngur eða einkabíla sem tveir eða fleiri ferðast í, getur létt á umferðarþunganum á vissum stöðum en málið er ekki svo einfalt.

Umferðarvandi mun vaxa

Áhersla sveitarstjórnarmanna í opinberri umræðu á uppbyggingu almenningssamgangna á Borgarlínu án umræðu um önnur samgöngumannvirki veldur áhyggjum. Við Hafnfirðingar verðum til dæmis að gera kröfu til bættra samgöngumannvirkja samhliða umræðunni um almenningssamgöngur framtíðarinnar. Í því ljósi má nefna Reykjanesbrautina en daglega fara í gegnum Hafnarfjörð um 30.000 bílar. Af þeim sökum eiga íbúar erfitt með að komast á milli hverfa og langar raðir bifreiða myndast á álagstímum. Þrátt fyrir bjartsýnustu spár um 12% notkun almenningssamgangna árið 2040 gera umferðarspár ráð fyrir allt að 46.000 bílum á þessari leið. Fyrir okkur Hafnfirðinga er ástandið óásættanlegt. Umferðarvandinn verður ekki leystur með tilkomu Borgarlínu. Án annarra aðgerða mun vandinn halda áfram að vaxa.

Brýn forgangsverkefni

Hringtorg Lækjargata

Af brýnum vegaframkvæmdum má nefna kaflann á Reykjanesbraut frá hringtorginu við Lækjargötu/Hlíðarberg norður fyrir Kaplakrika, væntanlegan Ofanbyggðarveg í gegnum Garðabæ, Álftanesveg sem hefur verið á skipulagi í áratugi og tvöföldun Reykjanesbrautar. Þessar framkvæmdir þarf að setja í forgang á allra næstu árum. Þótt flestir séu sammála því að stefna beri að bættum almenningssamgöngum þarf að vinna heildrænt og á raunhæfan máta að því að bæta samgöngurnar á svæðinu. Fjármagn til samgöngumála er af skornum skammti og þegar því er útdeilt verður að taka tillit til hagsmuna fjöldans og þess að vegfarendur hafa mismunandi þarfir og gera ólíkar kröfur.

Rósa er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og Ingi er formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar.


Leave a comment

Hafró í Hafnarfjörð.

Fjarðarfréttir 8. mars 2017.

Það er mikill fengur fyrir okkur Hafnfirðinga að ákvörðun hafi verið tekin um flutning Hafrannsóknar­stofnunar (Hafró) í Hafnarfjörð. Það er félagið Fornubúðir ehf. sem varð hlutskarpast í útboði Ríkis­kaupa á húsnæði undir starf­semi Hafró. Stofnunin mun verða við Fornubúðir 5 sem margir þekkja sem SÍF húsið. Aukin byggingarreitur við Fornubúðir 5 var nýlega sam­þykktur af öllum fulltrúum í skipulags- og byggingarráði og hafnarstjórn, hins vegar voru það bæjarfulltrúar meiri­hlutans í bæjarstjórn sem samþykktu tillögu um aukin byggingarreit en þrír bæjarfulltrúar minnihlutans höfðu ekki skoðun á málinu og kusu að sitja hjá og einn var á móti tillögunni.

Fornubúðir 5

Það sem fylgir Hafró

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilaði nýlega skýrslu til Alþingis um fyrir­hugaðan flutning á aðsetri Hafrann­sóknastofnunar – ráðgjafarstofnunar hafs og vatna. Í skýrslunni segir m.a. „Um er að ræða húsnæði sem að mestu verður nýbygging og hægt er að sníða að þörfum stofnunarinnar, sem kemst með því undir eitt þak. Rannsóknarskipin fá lægi í höfninni rétt við húsið. Þá er mögulegt að stækka húsið og þegar eru uppi hugmyndir að koma þar á fót þekk­ingarsetri um hafið og heim­skautin, auk þess sem sjávar­klasi með sprota­fyrirtækjum og þekkingar­fyrir­tækjum í sjávarútvegi hefur líst miklum áhuga að kom­ast í nábýli við stofnunina með samstarf í huga.“ Við kjörnir fulltrúar sem sam­þykktum aukinn bygg­ingarrétt við Fornubúðir 5 sjáum eins og ráðherrann mikil tækifæri samhliða flutn­ing Hafró í Hafnarfjörð. Nefnd eru í skýrslunni þekk­ing­ar­­setur, sprota­fyrirtæki og þekk­ingarfyrirtæki auk þess sem tækifæri gefst fyrir fræðslu- og kennsluhlutverk stofn­unarinnar að vaxa og þróast en frekar.

Framtíð Flensborgarhafnar

Samkvæmt því sem kemur fram hér að ofan er fyrirséð að mjög mikil, jákvæð uppbygging og starfsemi verður á þessu svæði. Við smá­báta­höfnina hefur verið vaxandi áhugi á ýmis­konar starfsemi, má þar nefna Íshúsið sem iðar af lífi alla daga vikunnar, litlu húsin við Fornubúðir þar sem allskonar starfsemi fer fram og Drafnarhúsið sem hýsir m.a. veit­ingarstaði og verslun. Fyrirhugað er að halda áfram með vinnu við skipulag á Flensborgarsvæðinu og er ég þess fullviss að áhugi á frekari uppbyggingu við smábátahöfnina muni fylgja komu Hafró.


Leave a comment

Vinstri græn og forgangur verkefna.

Fjarðarfréttir 25. jan. 2017

Í síðasta blað Fjarðarfrétta skrifar bæjarfulltrúinn Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir um skyldur sveitarfélaga til að uppfylla þörf um félagslegt húsnæði og tengir fjármögnun íþróttarmannvirkja við þá umræðu. Gott er að fara yfir nokkrar staðreyndir í þessu máli. Á síðasta ári keypti Hafnarfjarðarbær þrjár íbúðir til félagslegra nota, á þessu ári verða 200 miljónum varið í kaup á félagslegu húsnæði. Á síðasta kjörtímabili, sama tímabili og VG sátu í meirihluta ásamt Samfylkingu með oddvita VG í stól bæjarstjóra síðustu tvö árin má rifja upp að ekki var fjölgað um eina félagslega íbúð á kjörtímabilinu.

Forgangur VG.

Nú stingur augu bæjarfulltrúans „forgangur“ núverandi meirihluta þar sem 200 milljónir fara í kaup á félagslegum íbúðum á móti 350 milljónum í íþróttamannvirki. Eins og áður sagði var ekki fjölgað um eina félagslega íbúð á síðasta kjörtímabili, til að allrar sanngirni sé gætt þá stóð sveitarfélagið á barmi gjaldþrots á þessum tíma og því ekki mikið til ráðstöfunar. Í því ljósi og þá áherslum VG á kjörtímabilinu 2010-2014 má geta þess að settar voru yfir 700 milljónir í íþróttamannvirki, á Kaplakrika og Ásvöllum. Þessi upphæð er nálægt því sem sveitarfélagið hafði á einu til tveimur árum til framkvæmda og viðhalds. Að endingu og í tilefni þess að bæjarfulltrúinn telur að mikið hafi verið gert á síðasta kjörtímabili til að rétta við slæma fjárhagsstöðu bæjarins þá mæli ég með fyrirlestri Stefáns B. Gunnlaugssonar, dósents við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri um fjárhagslega heilsu sveitarfélaga flutta 20. jan. sl. Upptökuna má finna hér: https://upptaka.unak.is/Panopto/Pages/Viewer.aspx?id=3d8eeea4-7529-4214-99b4-34ffcf38a91d

 

 


Leave a comment

Borgarlína og aðrar samgöngulínur.

Fréttablaðið 16. des. 2016

Fjármagn til samgöngumála er og hefur verið að skornum skammti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður nýsamþykkt samgönguáætlun skorin niður um 13 milljarða og væntingar margra verða að engu. Umræðan um samgöngumál hér á höfuðborgarsvæðinu hefur að mestu snúist um fyrirhugaða Borgarlínu, minna hefur verið rætt um aðrar samgönguúrbætur s.s. bætt og betri samgöngumannvirki og því síður hefur verið rætt um aðrar og einfaldari leiðir til að draga úr umferðarhnútum á álagstímum.
Bílar

Borgarlínan

Ein af meginforsendum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er Borgarlínan sem er hraðvagna eða lesta kerfi í gegnum alla meginása höfuðborgarsvæðisins, markmiðið er að notkun á almenningssamgöngum fari úr 4% árið 2016 í 12% árið 2040. Allar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu styðja uppbyggingu almenningssamgangna enda þjóðhagslega hagkvæmt og ekki síður umhverfislega mikilvægt að minnka notkun einkabílsins eins og kostur er. Þó svo að markmið Borgarlínunnar náist og veruleg aukning verði á notkun almenningssamgangna má gera ráð fyrir áframhaldandi umferðarteppum á álagstímum. Helstu umferðaræðar höfuðborgarsvæðisins hafa ekki vaxið í takt við aukna umferð, skort hefur á pólitískan vilja hjá sveitarstjórnum á að þrýsta á úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, áherslan hefur verið á eitthvað annað og því sitjum við föst í umferðinni, á morgnana og svo aftur síðdegis.

Einfalda og ódýra leiðin.

Þar sem fyrirséð er að ekki verður til fjármagn í fjárfrekar framkvæmdir á helstu umferðarmannvirkjum og miklum fjármunum verður varið í almenningssamgöngur á næstu árum þarf að bregðast við vandanum sem við okkur blasir á álagstímum í umferðinni. Öll komumst við greiðlega á milli staða á milli kl. 08:30 og 16:00 og svo aftur frá kl. 17:30 – 07:30. Vandamálið í umferðinni eru tvær og hálf klst. Á álagstímum í umferðinni eru flestir ökumenn annað hvort opinberir starfsmenn eða nemendur, allir þessir ökumenn þurfa að vera mættir eitthvert á sama tíma, og þá helst miðsvæðis í Rvk. Einfalda lausnin eða öllu heldur ódýra leiðin er að ríki, sveitarfélög og skólar taki höndum saman og skipuleggi vinnutíma starfsfólks og nemenda þannig að upphaf vinnudags sé á mismunandi tímum þannig að álagið á umferðina dreifist á morgnana og svo aftur seinni partinn. Það sem þarf til er að leggja réttu línuna með samtali og skipulagi, þannig mun sparast fé og dýrmætur tími.


Leave a comment

Samgöngur

Daglega hafa samgöngur áhrif á flest okkar, við það eitt að komast frá A til B lendum við oft í löngum bílalestum, förum í langt og tímafrekt ferðalag í strætó, hjólum um stíga sem mættu vera fleiri og betur viðhaldið og svona mætti lengi telja.

hradvagn

Aukið fjármagn í vegaframkvæmdir.

Fjögurra ára samgönguáætlun var samþykkt á lokadögum þingsins, í henni er framkvæmdum mislægra gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar flýtt um eitt ár og munu framkvæmdir hefjast á næsta ári. Kostnaður Hafnarfjarðarbæjar vegna þessa er talsverður auk þess sem gert er ráð fyrir að um 100 mkr. verði settar í tengingu Krýsuvíkurvegar við efsta hringtorg Ásbrautar sem verður mikil samgöngubót fyrir efri hluta Valla að viðbættum mislægu gatnamótunum. Hönnun Ásvallabrautar og hluta Kaldárselsvegar er að ljúka og mun verða kynnt íbúum á næstu vikum. Með bættri fjárhagsstöðu bæjarins er aukið fjármagn til nýframkvæmda og viðhalds gatna og stíga.

Borgarlínan.

Ein megin forsenda Svæðisskipulags Höfuðborgarsvæðisins sem gerir ráð fyrir þéttingu byggðar og aukinni notkun á almenningssamgöngum er Borgarlínan sem er hugsuð sem hraðvagna eða lesta kerfi á milli helstu þéttbýliskjarna höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið með Borgarlínunni er að auka vægi almenningssamgangna úr 4% í 12% fyrir árið 2040. Áætlað er að íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 70.000 á tímabilinu og því mikilvægt að efla hlut almenningssamgangna. Áætlanir gera ráð fyrir að í byrjun næsta árs verði búið að taka flestar ákvarðanir varðandi Borgarlínuna og sveitarfélögin fari í að breyta skipulagi þar sem leið hennar verður sett inn. Ég hvet alla til að fylgjast með umræðunni og kynna sér svæðisskipulagið en það m.a. finna á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ssh.is.

 

 

 


Leave a comment

Skipulag og samgöngur.

Skarðshlíð, mynd

Nýtt glæsilegt skipulag lóða fyrir fjölbýlishús í Skarðshlíðar var afgreitt frá skipulags- og byggingarráði svo og bæjarráði í síðustu viku, á sama fundi bæjarráðs var samþykkt að leita eftir tilboðum í lóðirnar. Áhersla er lögð á fjölbreytileika og heildræna sýn byggðar þar sem dregið er úr sýnileika bílsins þar sem garðar snúa í suður og byggingar mynda skjól fyrir norðan- og austan áttum. Lögð er áhersla á fjölbreytilegum útivistarsvæðum fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Unnið að breyttu skipulagi í Skarðshlíð fyrir lóðir undir í sérbýli, markmiðið er að svara kröfum um minni og hagkvæmari sérbýli. Gert er ráð fyrir að nýtt skipulag sérbýlislóða liggi fyrir í byrjun vetrar og úthlutun lóða fari fram fyrri hluta næsta árs. Skarðshlíð sem er á skjólgóðu svæði við náttúruperlur upplands Hafnarfjarðar er að mínu mati einn af betri kostum til búsetu á höfuðborgarsvæðinu.

Hraunin og önnur svæði.

Unnið er að nýju skipulagi iðnarhverfisins á Hraunum, svæðið afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatarhrauni. Meginmarkmið skipulagsvinnunnar er að auka gæði og verðmæti svæðisins með bættu umhverfi og lífsgæðum fyrir notendur og íbúa. Nýtingu landsvæðisins er aukin með auknu byggingarmagni og þéttingu byggðar. Heildaryfirbragði svæðisins verður breytt með aukinni fjölbreytni í nýtingu. Svæðinu verður breytt úr því að vera athafnasvæði í blandaða byggð atvinnu- verslunar- og þjónustuhúsnæðis auk íbúðabyggðar. Verkefið samræmist vel markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins um þéttingu byggðar og liggur vel við almenningssamgöngum eins og fyrirhugaðri Borgarlínu. Áætlað er að hægt verði að kynna niðurstöður úr samkeppni um skipulagið fyrir áramót. Ákvarðanir um aðra staði til þéttingar byggðar eru til skoðunar og verða kynntar þegar niðurstaða liggur fyrir um einstök svæði eða lóðir.

Samgöngur.

Mikil þörf er á úrbótum í samgöngumálum víða í og við Hafnarfjörð. Frá árinu 2002 hafa engar stórframkvæmdir að hálfu Vegagerðarinnar verið á þessu svæði. Nú er aðeins að rofa til hjá okkur, í tillögu að Samgönguáætlun eru mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar á dagskrá á næsta ári. Tillaga að breyttri legu og nýju deiliskipulagi Ásvallabrautar og Kaldárselsvegar verður kynnt og kláruð á næstu vikum. Hluti Kaldárselsvegar er á ábyrgð Vegagerðarinnar og liggur fyrir að þegar nýtt skipulag vegarins verður klárað verður þrýst á framkvæmdir, jafnframt er gert ráð fyrir 550 milljónum í Ásvallabraut næstu þrjú árin. Eftir margra ára stöðnun er nú með bættri fjárhagsstöðu bæjarins tækifæri til að ráðast í uppbyggingu og framkvæmdir, það eru bjartir tímar framundan hjá okkur Hafnfirðingum.


Leave a comment

Hreinni Hafnarfjörður

Nú í upphafi sumars hefjast að venju vorverkin. Óhreinindum sem safnast hafa yfir veturinn sópum við í burtu, snyrtum til í görðunum og höldum inn í sumarið með hreinan og fallegan bæ. Ég vildi að hægt væri að segja að allur bærinn væri hreinn og fallegur en því miður er svo ekki. Langflestir íbúar bæjarins hafa metnað til að bærinn okkar líti ávalt sem best út, en eins og svo oft áður hefur komið fram hjá mér í ræðu og riti þá eru svæði þar sem umgengni er verulega ábótavant, þetta eru iðnaðarsvæðin. Á þessum svæðum eru margir sem hugsa vel um þessi mál og eru til fyrirmyndar í umgengni við nágrenni og náttúru en allt of mörgum virðist vera nákvæmlega sama hvernig umhorfs er á lóðum þeirra, alls kyns rusli er safnað saman engum til gagns en okkur sem viljum halda bænum hreinum og fallegum til mikils ama.

Höfnin og Lónið.

Í frétt frá Hafnarfjarðarbæ um árvisst hreinsunarátak í bænum segir:„Skúra burtu skítinn, svo einhver vilji lít´inn“ Þetta eru orð að sönnu, aukinn fjöldi ferðamanna sækir í Fjörðinn og eins og aðrir viljum við hafa allt hreint og fagurt þegar gesti ber að garði og ekki síður fyrir okkur sjálf. Tveir þeirra staða sem ferðamenn sækja í eru hafnarsvæðið og golfvöllurinn. Ef leiðin að þessum tveimur svæðum er skoðuð þá verður að segjast eins og er að umgengni á mörgum lóðum þeirrar leiðar er til háborinnar skammar og í raun ekki boðleg. Bátaskýlin við Hvaleyrarlón og það svæði hefur alla burði til að vera eftirsótt svæði til ýmiskonar starfssemi og gæti boðið upp á fjölbreytta þjónustu. Við skoðun á svæðinu kom margt ógeðfellt í ljós, svo virðist sem búið sé í einhverjum þessara húsa og skólpi er hleypt út í lónið, auk þess sem gríðarleg ruslasöfnun fer fram við nokkur hús. Ákveðið hefur verið að grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna þessa.

Samstillt átak.

Frá því að ég byrjaði að fjalla um þessi mál hefur lítið breyst, ruslið á iðnaðarsvæðunum er enn að mestu til staðar og fá úrræði til önnur en að höfða til samvisku manna um betri umgengni. Nú stendur yfir árleg vorhreinsun þar sem íbúar og bærinn sameinast í að gera bæinn okkar fallegan fyrir sumarið. Eins og áður er rakið vantar upp á að mörg fyrirtæki taki þátt. Við bæjarbúar getum og eigum að láta okkur varða hvernig gengið er um í bænum okkar og með samstilltu átaki getur hvert og eitt okkar haft áhrif á þá aðila sem ekki sýna okkur þá virðingu að ganga snyrtilega um. Hjálpumst öll að við að gera fallegan bæ enn fallegri.