Ingi Tómasson

Hafnarfjörður


Leave a comment

Betri samgöngur – að hluta

visir.is 23.júní 2021

Með samþykkt á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins árið 2015 var samþykkt ný sýn á þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Bæta átti verulega í varðandi stofnvegi, almenningssamgöngur og hjóla- og göngustíga. Árið 2019 undirrituðu ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í samgöngusáttmálanum fólst að 120 milljarðar yrðu settir í samgöngur á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin. Í stofnvegi færu 52 milljarðar, í Borgarlínu 50 milljarðar, í hjóla- og göngustíga færu 8,2 milljarðar og í umferðarstýringar og sértækar öryggisaðgerðir 7,2 milljarðar.

Samgöngusáttmálinn í framkvæmd

Lokið er við framkvæmd á Reykjanesbraut á milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar og unnið er að skipulagi á tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Í október 2020 var stofnað sérstakt félag um framkvæmd samgöngusáttmálans; Betri samgöngur ohf. Kynningarfundur í Nauthól var haldinn um fyrsta hluta Borgarlínu. Flott kynningargögn hafa verið unnin af starfsmönnum Betri samgöngur ohf. varðandi Borgarlínuna sem í framhaldinu eru notuð til deiliskipulagbreytinga og aðalskipulagsbreytinga eftir atvikum í viðkomandi sveitarfélögum. Ég sakna þess að sjá ekki neinar tillögur eða hugmyndir frá Betri samgöngum ohf. um annað sem  skrifað er í samgöngusáttmálann, má þar nefna mislæg gatnamót við Bústaðarveg/Reykjanesbraut og Sæbraut í stokk sem áttu að koma til framkvæmda á þessu ári. Einnig ætti félagið að hafa í forgangi þann hluta samgöngusáttmálans sem fjallar um hjóla- og göngustíga svo og umferðarstýringu.

Umferðin í og við Hafnarfjörð

Það var til mikilla bóta að fá mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg/Reykjanesbraut og nýja tvöfalda kaflann á Reykjanesbraut. Þar með er vandi okkar Hafnfirðinga alls ekki leystur. Samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir að um 13 milljarðar fari í framkvæmdir á stofnvegum í og við Hafnarfjörð, þar inni er Reykjanesbraut – Álftanesvegur – Lækjargata þar sem áætlað er að framkvæmdir hefjist árið 2024.  Mikilvægt er að hönnun liggi fyrir sem allra fyrst þar sem reynslan sýnir að  hönnun tekur langan tíma og svo er alltaf spurning um umhverfismat og kæruferli. Mín tillaga er að þessum framkvæmdum verði hraðað sem kostur er enda stofnæðin í gegnum bæinn ekki boðleg íbúum með allri þeirri umferð sem þar flæðir daglega. Auk þess geri ég kröfu á Garðbæinga að  opna fyrir umferð frá gamla Álftanesvegi um Herjólfsbraut inn og út úr Norðurbænum.

Vegurinn sem aldrei kemur

Við gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins var Ofanbyggðarvegur frá Hafnarfirði til Kópavogs felldur út af skipulagi að kröfu Garðabæjar, þess í stað var settur innanbæjarvegur í aðalskipulag Garðabæjar sem liggur frá Flóttamannavegi meðfram Urriðakotsvatni og tengist Álftanesvegi við Reykjanesbraut (Góa er við Álftanesveg).  Í ljósi umræðu um aðgengi íbúa að Urriðaholti, fyrirhugaðri uppbyggingu á og við golfvöllinn í Setbergi sem tilheyrir Garðabæ svo og flæði umferðar á Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi voru það mistök af Garðabæ að fella Ofanbyggðarveg út af aðalskipulaginu. Í greinargerð Vegagerðarinnar „Höfuðborgarsvæðið 2040 – Sýn Vegagerðarinnar – Janúar 2019“ kemur eftirfarandi fram: „Ofanbyggðarvegur frá Kópavogi til Hafnarfjarðar er eina leiðin sem hugsanlega gæti létt umferð af Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi. Við að falla frá hugmyndum um Ofanbyggðarveg um Garðabæ verður öll umferð til framtíðar um núverandi vegi og þar með eykst enn mikilvægi þess að halda þjónustustigi á þeim háu.“ Og síðar segir:  „Vegagerðin telur æskilegt að halda fyrri áætlun um Ofanbyggðarveg allt frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, um Garðabæ og Kópavog inni til framtíðar.“  Tek ég undir með Vegagerðinni og tel æskilegt að Garðbæingar endurskoði afstöðu sína til Ofanbyggðarvegar.

Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi (D) og formaður skipulag- og byggingarráðs Hafnarfirði.


Leave a comment

Þegar innviðir hitaveitunnar rofna – í kuldakasti

Fréttablaðið 25. febrúar 2021

Lokað fyrir heitt vatn á stærra svæði í Kópavogi - Vísir

Öll gerum við ráð fyrir að ríki og sveitarfélög sjái til þess að okkur sé tryggt ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika  hvað varðar þjónustu og innviði. Afhendingaröryggi er eitt þeirra orða sem notað er eftir að innviðir raforkukerfisins bresta. Minnug afleiðinga óveðursins sem gekk yfir norðurhluta landsins fyrir rúmu ári síðan þegar víða varð rafmagnslaust um lengri eða skemmri tíma mætti heimfæra slíkar hamfarir á hitaveitukerfið.  

Afhendingaröryggi heita vatnsins

Á höfuðborgarsvæðinu búa um 237 þúsund íbúar í um 90.000 heimilum sem öll eru kynnt upp með heitu vatni. Hitaveitan er einstök á heimsmælikvarða, vistvæn og ódýr orka sem við teljum sjálfgefna. En er það svo? Gætu hamfarir eins og fyrir norðan þegar rafmagnið brást einhvern tímann yfirfærst á heita vatnið? Ég hef ekki svar við þeirri spurningu en minnugur umræðunni um heita vatnið og rafmagnið frá HS Orku vegna jarðhræringa við Grindavík á síðasta ári þá getur hið óvænta gerst. Rifja má upp þegar við vorum beðin að spara heita vatnið í kuldaköstum 2019 og 2020. Stór hluti Reykjavíkur, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður fá heitt vatn frá Nesjavöllum og Hellisheiði. Veitur dreifa um 90 milljónum rúmmetrum af heitu vatni á ári og fer sú tala hækkandi með fjölgun íbúða og hótela. Frábært og öruggt kerfi við eðlilegar aðstæður, en eins og fyrir norðan þá geta aðstæður breyst, aðstæður sem ekki eru fyrirséðar og engin hefur stjórn á. Hefur þú lesandi góður hugleitt komi slíkar aðstæður upp og heitavatnsleiðslur frá Nesjavöllum og/eða Hellisheiði rofna, jafnvel í löngu kuldakasti hverjar afleiðingarnar verða? Eflaust langsótt en ekki útilokað.

Krýsuvík

Á 6. áratug síðustu aldar voru uppi hugmyndir um að virkja í Krýsuvík, dæla átti heitu vatni inn í Hafnarfjörð og jafnvel inn á höfuðborgarsvæðið. Ekkert varð af þeim fyrirætlunum en þar er að finna eitt mesta háhitasvæði landsins. Frá aldamótum hafa komið fram hugmyndir um nýtingu jarðvarma frá þessu háhitasvæði án þess þó að þær hafi náð fram að ganga. Huga þarf að afhendingaröryggi á heitu vatni með sama hætti og gert er með raforkuna. Krýsuvík er kostur til virkjunar, með því væri komin tenging við kerfi Veitna sem dregur úr álagi á virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum en umfram allt væru komin tvö samtengd kerfi sem gætu aukið öryggi og fyrirsjáanleika afhendingaröryggis á heitu vatni inn á höfuðborgarsvæðið. Við skulum einnig hafa í huga að heita vatnið er ekki óþrjótandi auðlind sem endurnýjar sig eftir því  á hana er gengið, því þarf að dreifa álaginu og huga að öðrum svæðum þar sem þessa auðlind er að finna.

Ó. Ingi Tómasson

Bæjarfulltrúi (D), Hafnarfirði


Leave a comment

Framtíðin er björt – gerum þetta saman!

visir.is 3. febrúar 2021

Það var dapurlegt að lesa grein varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa flokksins í skipulags- og byggingarráði um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Grein sem hann síðan fylgdi eftir með útvarpsviðtali á Bylgjunni. Það sem einkennir málflutning Samfylkingarinnar er að hér sé ekkert að gerast og hringlandaháttur í vinnubrögðum meirihlutans sé ástæða fólksfækkunar í Hafnarfirði. Við skulum vera sanngjörn og segja: sú þróun er ekki góð. En hver er ástæðan og hvað er framundan? Förum yfir nokkur atriði.

Nýbyggingarsvæði

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum í Skarðshlíð undanfarið og ætla má að síðustu lóðunum í því hverfi verði úthlutað á fundi bæjarráðs í næstu viku. Hverfið sem er í jaðri upplands Hafnarfjarðar í skjólsælum hlíðum á móti suðri verður að okkar mati eitt eftirsóttasta hverfi höfuðborgarsvæðisins innan fárra ára. Fyrsta fjölbýlishúsið fór nýverið í sölu og seldust allar íbúðir upp á nokkrum dögum. Nýbyggingarsvæði í Hafnarfirði eru samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Hafnarfjarðar; Hamranes, Ásland 4 og 5 og Vatnshlíð. Samþykkt hefur verið að hefja vinnu við deiliskipulag Áslands 4 og 5, þar sem gert er ráð fyrir góðri blöndu húsnæðis. Eins og við flest vitum, en virðist því miður ítrekað koma fulltrúum Samfylkingarinnar sérstaklega á óvart, var forsenda uppbyggingar á þessum svæðum niðurrif Hamraneslínu. Samkomulag við Landsnet gerði ráð fyrir að niðurrifi línanna yrði lokið árið 2018, en ekkert varð að þeim áformum vegna kæru umhverfissamtaka og niðurfellingu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála á framkvæmdaleyfi á Lyklafellslínu. Með samkomulagi bæjarins við Landsnet var Hamraneslína flutt til bráðabirgða frá jaðri Skarðshlíðar og nýbyggingarsvæðinu í Hamranesi. Hófust þeir flutningar um mitt ár 2019. Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð í Hamranesi, þar sem nú þegar búið er að úthluta lóðum undir 298 íbúðir og veita lóðarvilyrði fyrir um 900 íbúðum. Þessi fjöldi íbúða þýðir fjölgun um 3000 íbúa – bara á þessu nýbyggingarsvæði og munu byggingaframkvæmdir hefjist á vormánuðum. Við þetta má bæta að framkvæmdum við Ásvallabraut mun ljúka á þessu ári sem verður mikil samgöngubót fyrir okkur Hafnfirðinga og þá sérstaklega nýja og væntanlega íbúa þessara hverfa.

Hraun vestur – þétting byggðar

Fulltrúa Samfylkingarinnar láðist af einhverjum ástæðum að minnast á þá uppbyggingu sem nú er að hefjast við Hraun vestur – Gjótur. Þar er fyrirhuguð byggð, 490 íbúðir auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Aðal- og deiliskipulag liggur fyrir og gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist nú á vormánuðum. Hvers vegna minnist fulltrúi Samfylkingarinnar ekki einu orði á þessa kröftugu uppbygginu sem þar er að hefjast og á svæði sem er á besta stað við samgönguás Borgarlínunnar? Gæti það verið vegna þess að Samfylkingin hefur ítrekað lagst gegn uppbyggingu á svæðinu og greitt atkvæði gegn málinu? Það er von að spurt sé. Önnur þéttingarverkefni fara í úthlutun þegar skipulag liggur fyrir og má þar sérstaklega nefna Hjallabraut og Hlíðarbraut, en gera má ráð fyrir að þær lóðir verði mjög eftirsóttar. Dvergsreiturinn svokallaði er í einkaeigu og eru lóðarhafar nú að vinna að fullnaðarteikningum í samræmi við þá áætlun sem kynnt hefur verið bæjaryfirvöldum og tekið hefur verið fyrir á fundum bæjarráðs.

Förum rétt með staðreyndir

Það er ekki góð þróun að röngum upplýsingum sé stöðugt veifað framan í bæjarbúa. Nú er mál að linni og hægt er að fullyrða að bæjarbúar munu sjá afrakstur mikillar vinnu þessa kjörtímabils á næstu mánuðum líkt og farið hefur verið yfir hér að ofan. Íbúum mun fjölga verulega og falleg hverfi byggjast upp. Gerum þetta nú saman – bæjarfélaginu okkar og samfélaginu hér til heilla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs

Lovísa Traustadóttir, fulltrúi í skipulags- og byggingarráði

Ó. Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs


Leave a comment

Bjart framundan á byggingarmarkaði

Hafnfirðingur 13. janúar 2021

Image result for hamranes myndir

Það er engin tilviljun að góð eftirspurn er eftir lóðum í Skarðshlíð. Hverfið sem er í jaðri upplands Hafnarfjarðar í skjólsælum hlíðum á móti suðri verður að mínu mati eitt eftirsóttasta hverfi höfuðborgarsvæðisins innan fárra ára. Fyrsta fjölbýlishúsið fór nýverið í sölu og seldust allar íbúðir upp á nokkrum dögum. Framkvæmdir við hluta fjölbýlishúsa í hverfinu, um 140 íbúðir, hafa legið niðri frá því um mitt síðasta ár, ástæðan er að fyrirtæki framkvæmdaraðilans hefur átt í erfileikum og má að einhverju leiti rekja þau vandræði til skorts á íbúðum í fjölbýli á seinni hluta síðasta árs.

Hamranes

Nýbyggingarsvæði í Hafnarfirði eru samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Hafnarfjarðar, Hamranes, Ásland 4 og 5 og Vatnshlíð. Eins og við flest vitum (nema þá helst minnihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar) var forsenda uppbyggingar á þessum svæðum niðurrif Hamraneslína. Samkomulag við Landsnet gerði ráð fyrir að niðurrifi línanna yrði lokið ári 2018, ekkert varð að þeim áformum vegna kæru umhverfissamtaka og niðurfellingu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála á framkvæmdaleyfi á Lyklafellslínu sem er forsenda niðurrifs Hamraneslína. Með samkomulagi bæjarins við Landsnet var Hamraneslína flutt frá jaðri Skarðshlíðar og nýbyggingarsvæðinu í Hamranesi. Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð í Hamranesi, búið er að úthluta lóðum undir 298 íbúðir og veita lóðarvilyrði fyrir um 845 íbúðir. Reiknað er með að byggingarframkvæmdir í Hamranesi hefjist á vormánuðum. Framkvæmd við Ásvallabraut líkur á þessu ári sem verður mikil samgöngubót.

Hraun vestur – Gjótur

Glæsilegt skipulag sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Hjallahrauni og Helluhrauni hefur verið samþykkt. Alls er gert ráð fyrir 490 íbúðum með skjólgóðum görðum á svæðinu auk verslunar, þjónustu og möguleika á leikskóla. Svæðið er í góðri nánd við samgöngur af öllu tagi, almenningssamgöngur eru í göngufæri auk þess sem góðar tengingar eru við stofnbrautir og göngustíga bæjarins.  Það verður fjör á byggingar- og húsnæðismarkaðinum í Hafnarfirði á þessu og næstu árum.

Ó. Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs


Leave a comment

Mikilvægi álversins í Straumsvík

Morgunblaðið 6. júní 2020

Rio Tinto Alcan

Í rúm 50 ár hefur álverið í Straumsvík verið afar mikilvægt okkur Hafnfirðingum, atvinnulega og tekjulega fyrir fjölskyldur, fyrirtæki og Hafnarfjarðarbæ, á sama hátt hefur þjóðarbúið hagnast verulega af rafmagnssölu til álversins og útflutningsverðmæti úr Straumsvík á þessu tímabili eru gríðarleg. 

Deilt um raforkuverð

Samkeppnisstaða álvera hefur verið í umræðunni, lágt álverð og hátt raforkuverð eru helst nefnd sem aðalástæða slæmri stöðu áliðnaðarins á Íslandi. Án þess að taka afstöðu til hvort raforkuverð til stóriðju sé sanngjarnt eða ósanngjarnt má nefna að 85% raforkusölu Landsvirkjunar er til stóriðju, að hagnaður Landsvirkjunar hefur verið gríðarlegur síðustu árin, skuldir hafa lækkað verulega og fyrirtækið áætlar að greiða tugi milljarða í arð til eigenda síns næstu árin. Í þessu samhengi má nefna að forstjóri Landsvirkjunar lýsti því yfir í október 2010 að færi fyrirtækið ekki í neinar framkvæmdir gæti það greitt niður allar skuldir sínar á næstu 10-12 árum. Í umræðunni hafa bæði ráðherra málflokksins og forstjóri Landsvirkjunar líst því yfir að ekki komi til greina að niðurgreiða raforkuna eða setja sameiginlegar orkuauðlindir á útsölu, þessu er ég sammála en spyr hvar liggja hagnaðarmörk Landsvirkjunar og hvað er að frétta af kortlagningu á samkeppnisstöðu stóriðju með áherslu á orkuverð sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra boðaði að skilaði yrði á vormánuðum 2020?

Blikur á lofti

Fréttir um hugsanlega lokun álversins í Straumsvík ber að taka alvarlega. Hjá fyrirtækinu starfa um 500 manns auk fjölda starfa tengda álverinu, ætla má að um helmingur starfsmanna álversins komi frá Hafnarfirði. Viðskipti álversins við fyrirtæki í Hafnarfirði voru um 2 milljarðir á síðasta ári og tekjur bæjarins vegna álversins voru um 500 milljónir, þá eru ekki taldar með útsvarstekjur starfsmanna álversins eða starfsmanna fyrirtækja tengda álverinu. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif lokunar álversins á alla þá starfsmenn og fjölskyldur þeirra sem reiða sig á öruggar tekjur frá álverinu, á öll þau fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu til álversins og á Hafnarfjarðarbæ sem yrði af verulegum tekjumissi. Ofan á þetta allt saman erum við í „fordæmalausum“ aðstæðum vegna Covid – 19. Ég geri þá kröfu að ráðherrar og Landsvirkjun finni ásættanlega lausn með eigendum ÍSAL, Rio Tinto, annað er ekki í boði.

Ó. Ingi Tómasson

Bæjarfulltrúi (D) HafnarfirðiLeave a comment

Skipulag og framkvæmdir

Hafnfirðingur 4. mars. 2020

Hamranes, nýjasta byggingarsvæðið í Hafnarfirði kemur í framhaldi af uppbyggingu í Skarðshlíð. Gert er ráð fyrir að á vormánuðum verði búið að úthluta um 600 íbúðum í fjölbýli í Hamranesi og að uppbygging muni hefjast strax á þessu ári. Ásvallabraut sem liggur frá Skarðshlíð að Kaldárselsvegi er komin í útboð og munu framkvæmdir hefjast í vor. Glæsilegur leik- og grunnskóli er risinn í Skarðshlíð og stutt er í náttúruperlu Hafnarfjarðar, upplandið. Frábær valkostur til búsetu fyrir alla.

Uppbygging á öðrum svæðum

Nýverið var samþykkt glæsilegt rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Svæðið mun byggjast upp sem íbúðar- verslunar- og þjónustusvæði tengist hjarta Hafnarfjarðar, miðbænum okkar. Framundan er áframhaldandi skipulagsvinna sveitarfélagsins og lóðarhafa. Skipulagsvinna við Hraun vestur, fimm mínútna hverfið er í fullum gangi. Hverfið er miðsvæðis með góða tengingu við almenningssamgöngur og mun einnig byggjast upp sem íbúðar- verslunar- og þjónustusvæði. Spennandi verður að sjá þessi svæði byggjast upp.

Reykjanesbrautin

Til að tryggja umferðaröryggi er Það forgangsmál að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar sem allra fyrst. Nýlokið er gerð mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg og unnið er að tvöföldun frá þeim kafla að Kaldárselsvegi, þeim framkvæmdum lýkur á þessu ári. Meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur lagt þunga áherslu á að lokið verði við kaflann frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Það var því ánægjulegt þegar samgönguráðherra lýsti því yfir að flýta mætti framkvæmdum á þessum kafla um fjögur ár og framkvæmdir gætu hafist árið 2022. Forsenda þess er breyting á aðalskipulagi þar sem Reykjanesbrautin yrði breikkuð í núverandi vegstæði. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Reykjanesbrautin taki stóran sveig upp fyrir Straumsvík sem er mun dýrari kostur en að breikka hana í núverandi vegstæði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt að fara í þessa aðalskipulagsbreytingu þar sem  Reykjanesbrautin verði áfram í núverandi vegstæði. Sannarlega mörg skemmtileg verkefni framundan í Hafnarfirði.

Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi, formaður skipulags- og byggingarráðs   


Leave a comment

Hafnarfjörður í forystu í aukinni sjálfbærni í skipulags- og byggingarmálum

Vísir 12. júní 2019.

Minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda er mál sem ekki fyrir svo löngu síðan komst í hámæli. Við Hafnfirðingar höfum tekið umhverfismálin alvarlega m.a. með metnaðarfullri umhverfis- og auðlindarstefnu þar sem tekið er á flestum málum er varða verndun og betri umgengni við umhverfið auk aðgerðaráætlunar varðandi stefnu Hafnarfjarðar um umhverfis og auðlindarmál.

Vistvænar framkvæmdir í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 29. maí tillögur að aðgerðum til að hvetja húsbyggjendur að setja umhverfið í forgang í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, auknar kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og aukna umhverfisvitund almennings. Tillögurnar fjalla m.a. um að djúpgámar verði á öllum uppbyggingarsvæðum auk þess sem gert verði ráð fyrir þeim við endurskoðun á skipulagsskilmálum í eldri hverfum. Samþykkt voru ákvæði um endurvinnslu úrgangs á framkvæmdarstað, að minnsta kosti 20% byggingarefna í nýframkvæmdum skuli hafa umhverfisvottun og að Hafnarfjarðarbær móti sér stefnu um vottun ( Breeam, Svanurinn eða sambærilegt) allra nýbygginga á vegum sveitarfélagsins. Samþykkt var að innleiða hvata til framkvæmdaraðila til þess fá Svansvottun, BREEAM vottun eða sambærilegt á nýbyggingar, meðal annars í formi afsláttar af lóðaverði. Samþykkt var að afsláttur af lóðarverði vegna Svansvottaðs húss verði 20%, að byggingar með Breeam einkunn “Very good” 55% fái 20% afslátt af lóðarverði og við Breeam einkunn “Excellent” 70% verði afsláttur af lóðarverði 30%. Þá samþykkti bæjarstjórn jafnframt að Hafnarfjörður gerist aðili að Grænni byggð.

Í stóra samhenginu

Samþykkt bæjarstjórnar er einkar ánægjuleg en e.t.v. vill lítið skref í stóra samhenginu um umhverfisvernd en lýsir vilja bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í umhverfismálum. Í stóra samhenginu þar sem byggingar og byggingariðnaðurinn á heimsvísu er talinn ábyrgur fyrir um 25%-35% losun gróðurhúsalofttegunda má e.t.v. segja að samþykkt okkar í Hafnarfirði megi sín lítils en eins og máltækið segir „margt smátt gerir eitt stórt“ þannig munum við ná árangri í umhverfismálum.

Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi Hafnarfirði (D)


Leave a comment

Að slá ryki í augu fólks

Fjardarfréttir 1. maí 2019.

Vegna greina sem fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar skrifuðu í Fjarðarfréttir þann 17. apríl er rétt að vekja athygli á eftirfarandi.

Miðbæjarskipulagið

Friðþjófur helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, virðist vera utangátta í  stjórnkerfinu þegar hann fullyrðir að verið sé að halda skipulagsvinnu miðbæjarins leyndri. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, í skipulags- og byggingarráði og í bæjarráði hafa getað hvenær sem er í ferli skipulags miðbæjarins lagt fram tillögur sama efnis og Friðþjófur sér sig knúinn til að skrifa um. Miðbæjarskipulagið hefur verið til umfjöllunar í skipulags- og byggingarráði síðustu ár. Undirbúningur er mikill og vandasamur. Húsakönnun og aðrir þættir sem snerta m.a. lóðaleigusamninga, gildandi skipulag og réttindi lóðarhafa hafa verið framkvæmdir og skoðaðir og eru innlegg í væntanlegt skipulagsferli. Nýverið skipaði bæjarráð starfshóp um skipulag miðbæjarins. Starfshópinn skipa þrír kjörnir fulltrúar úr meiri- og minnihluta, fulltrúi íbúa í miðbænum, fulltrúi fyrirtækja í miðbænum og fulltrúi Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Með skipan starfshópsins er skipulagsvinnan formlega komin af stað og að sjálfsögðu verður sú vinna í opnu ferli í góðu samráði við íbúa Hafnarfjarðar.

Nýbyggingarsvæði

Bæjarfulltrúi og varaáheyrnarfulltrúi  í skipulags- og byggingarráði báðir í Viðreisn fara mikinn í grein sinni . Það er svipað með þá félaga og þann sem skrifaði um miðbæjarskipulagið að ekki ein tillaga um uppbyggingu eða nýtt skipulagssvæði hefur komið frá fulltrúum Viðreisnar á því ári sem sá flokkur hefur átt fulltrúa í bæjarstjórn og skipulags- og byggingarráði. Þau ykkar sem fylgst hafa með skipulagsmálum hér í Hafnarfirði vitið að öll nýbyggingarsvæði liggja undir háspennulínum, að línurnar áttu samkvæmt samkomulagi að fjarlægja á síðasta ári, að framkvæmdaleyfi til Landsnets vegna Lyklafellslínu var kært og fellt úr gildi en Lyklafellslína  er forsenda niðurrifs línanna. Á þessu ári verða línurnar færðar frá nýbyggingarsvæðum í Skarðshlíð og Hamranesi og eru lóðir í Skarðshlíð 3 tilbúnar og Bjarg íbúðarfélag komið langt í sinni skipulagsvinnu í Hamranesinu. Þetta eiga allir bæjarfulltrúar og allt ráðsfólk að vita  Einnig má geta þess að lokið er við gerð rammaskipulags á Hraunum vestur – fimm mínútna hverfið, gert er ráð fyrir um 2.500 íbúðum á svæðinu auk verslun og þjónustu. Lóðarhafar eru þegar byrjaðir á deiliskipulagsvinnu á því svæði. Rammaskipulag hafnarsvæðisins gengur vel og verður kynnt íbúum í byrjun sumars. Unnið er að skipulagi á nokkrum reitum í bænum og má nefna að lokið er vinnu á nokkrum reitum. Það er rétt sem kemur fram í grein þeirra félaga að „skipulagsvinna er tímafrek“. Í því samhengi erum við mjög ánægð með t.d. ganginn í skipulagsvinnu á Hraunum vestur og á hafnarsvæðinu. Við skorum á fulltrúa Viðreisnar að koma með tillögur um svæði til uppbyggingar í Hafnarfirði en ekki bara innantómar fullyrðingar sem ekki standast skoðun og eru einungis til þess fallnar að slá ryki í augu bæjarbúa.

Ó. Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs


Leave a comment

Þétting byggðar – Samgöngur – Lífsgæði

Svæðisskipulag

Fréttablaðið 31.10. 2018

Með samþykkt svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins árið 2015 var mótuð stefna til ársins 2040, ekki bara í skipulagsmálum heldur einnig í samgöngumálum með það að markmiði að stoppa útþenslu byggðar, auka hlutdeild almennings í almenningssamgöngum og bæta lífsgæði okkar allra sem búum á svæðinu svo og þeirra sem sækja okkur heim.

Þétting byggðar

í Hafnarfirði hófst þétting byggðar með uppbyggingu á Norðurbakka, Skipalóni og Lækjargötu. Á þessum stöðum voru frystihús, olíutankar, iðnaður og önnur starfssemi. Nú er nýsamþykkt rammaskipulag fyrir Hraun vestur, nýsamþykkt er deiliskipulag fyrir Dvergsreitin, búið er að samþykkja að hefja vinnu við rammaskipulag Flensborgar- og Óseyrarsvæðis ásamt því að verið er að skoða einstaka reiti fyrir smærri einingar. Samhliða þéttingu þurfa sveitarfélög jafnframt að geta boðið upp á lóðir í útjöðrum byggða

Ávinningur samfélagsins

Uppbygging á þegar skipulögðum og byggðum svæðum er ólík uppbyggingu á nýjum svæðum. Svæðisskipulagið gerir ráð fyrir að mikil uppbygging eigi sér stað næst legu Borgarlínu sem liggur í flestum tilfellum um þegar byggð svæði. Eldri byggingar þurfa í einhverjum tilfellum að víkja og auka þarf byggingarmagn umtalsvert á mörgum stöðum. Ávinningur samfélagsins er umtalsverður í nýtingu innviða s.s. gatna- og lagnakerfis, forsenda skapast fyrir góðar, skilvirkar almenningssamgöngur og sjálfbærni eykst. Við sem ferðumst erlendis sjáum þessi hverfi iðandi af mannlífi með skilvirkum almenningssamgöngum.

Samgöngur

Nýverið var undirrituð viljayfirlýsing um viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þeirra er samkomulag um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaga. Viljayfirlýsingin er í samræmi við svæðisskipulagið um uppbyggingu stofnvega og Borgarlínu. Með þessu er verið að stíga fyrsta skrefið í að bíllaus lífstíll verði raunverulegur valkostur og að stofnvegir beri þá umferð sem þar fer um.

Hagsmunir fárra eða samfélagsins í heild?

Svæðisskipulagið krefst breyttrar hugsunar íbúa sveitarfélaganna svo og stjórnsýslunnar. Mörg álitamál hafa komið upp í skipulagsferli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Mál enda í kæru, oftast vegna útsýnisskerðingar eða of þéttrar og/eða hárra byggðar. Við þéttingu byggðar er ekki einungis verið að horfa til fjölgunar íbúða heldur einnig til að þjónusta, verslun og atvinna byggist upp í nærumhverfinu. Vilji sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar svæðisskipulagið er mjög skír. Hagsmunir heildarinnar eru í fyrirrúmi. Alþingi þarf að skoða hvort endurskoða þurfi skipulagslög og reglugerðir til einföldunar og skjótari afgreiðslu í kerfinu. Lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og fullgildingu Árósasamningsins þyrfti að endurskoða. Í umsögnum fjölda samtaka úr atvinnulífinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga kom fram gagnrýni á að lögin gengu mun lengra en krafist er í samningnum sjálfum svo og í heimildum til kæru en tíðkast á Norðurlöndum . Allir sem koma að gerð skipulagsmál vilja ná sem bestri sátt hverju sinni en það eru alltaf eru einhverjir sem telja vegið að eigin hagsmunum. Svæðisskipulagið horfir til hagsmuna heildarinnar og það gerum við einnig sem vinnum að skipulagsmálum.


Leave a comment

Lækjargata 2 – Dvergslóðin

Lækjargata 2

Fjarðarpósturinn 27.8. 2018

Það var mikið fagnaðarefni þegar Dvergur var loks rifinn í júlí 2017. Þar með var verið að framfylgja ákvörðun bæjarstjórnar frá hátíðarfundi 1. júní 2008. Í upphafi síðasta kjörtímabils var farið í að vinna nýja skipulagsforsögn fyrir reitinn. Skipulagsforsögnin er forsenda þess deiliskipulags sem samþykkt var í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar þann 12. júlí sl. Í skipulagsforsögninni segir m.a. að almennt skuli ekki gera ráð fyrir að byggt verði hærra en 2 hæðir og nýtanlegt ris.

Ferlið

Í byrjun árs 2017 samþykkti skipulags- og byggingarráð (SBH) að efna til forvals um deiliskipulag, hönnun og uppbyggingu á Dvergsreitnum. Á sama fundi lagði ráðið til „að umhverfis- og skipulagsþjónusta undirbúi niðurrif Lækjargötu 2 samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar þann 17. febrúar 2016 á deiliskipulagsforsögn Lækjargata 2, Dvergslóðin.“ Forvalsnefnd/matsnefnd var skipuð á fundi SBH þ. 2. maí 2017, fulltrúar ráðsins voru Pétur Óskarsson (BF) og Júlíus Andri Þórðarson (VG). Eftir alútboð var samþykkt einróma að ganga til samninga við GG Verk. SBH samþykkti jafnframt að taka út raðhúsalengju, 4 hús sem voru teiknuð á baklóð Gúttó, gert er ráð fyrir að á þeim reit verði almenningsgarður. Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Gúttó um skipulagið. Skipulagið er nú í ferli hjá Skipulagsstofnun.

Uppbygging

Þann 11. júlí sl. undirrituðu þau Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og Helgi Gunnarsson fyrir hönd GG verks samning um  uppbyggingu á Dvergsreitnum samkvæmt niðurstöðum útboðs. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í haust. Það verður ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu á Dvergsreitnum. Gert er ráð fyrir 20 íbúðum, verslun og þjónustu á jarðhæð við Lækjargötu ásamt bílakjallara. Við sem höfum komið að þessu skipulagi erum mjög ánægð með niðurstöðuna. Fyrirhuguð byggð fellur vel að aðliggjandi byggð, mun styrkja mannlífið í miðbænum og er í fullu samræmi við áðurnefnda deiliskipulagsforsögn sem samþykkt var í bæjarstjórn.