Ingi Tómasson

Hafnarfjörður


Leave a comment

Stóru skipulagsmálin

Fjarðarpósturinn 15.5. 2018

Nýafstaðin er verðlaunaafhending og kynning á hugmyndasamkeppni um Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Þátttaka var vonum framar en alls bárust 14 tillögur í samkeppnina. Tvær tillögur deildu með sér 1. og 2. verðlaunum. Báðar þessar tillögur eru vel fram settar þar sem önnur þeirra leysir vel mótun byggðar í kringum Flensborgarhöfnina á meðan hin er með góða sýn á byggð með atvinnustarfsemi í bland við íbúabyggð upp með Óseyrarbraut og vestan við Flensborgarhöfn.

Hraun vestur og miðbærinn.

Annað stórt verkefni er Hraun vestur. Gerð rammaskipulags er lokið, lóðarhafar geta hafið deiliskipulagsvinnu fyrir staka reiti, huga þarf að skóla og leikskólamálum, gatnakerfi og gönguleiðum ásamt öðrum þáttum. Alls er gert ráð fyrir að um 60% byggingarmagns verði íbúðir eða um 2.300, annað verður verslun, þjónusta og léttur iðnaður. Gera má ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist snemma á árinu 2019. Við höfum öll skoðun á miðbænum okkar. Með nýjum veitingastöðum og öflugri starfsemi í Bæjarbíói hefur færst aukið líf í miðbæinn. Fráfarandi skipulags- og byggingarráð samþykkti að hefja endurskoðun á deiliskipulagi miðbæjarins og hefur verið ráðin verkefnastjóri til að stýra verkefninu. Gerð verður skipulagslýsing og væntanlega verður efnt til samkeppni um skipulagið. Ný tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins gæti legið fyrir á seinni hluta ársins 2019. Mörg önnur áhugaverð skipulagsmál eru í vinnslu eða nýlokið.

Jákvæð uppbygging.

Það sem er nefnt hér að ofan bíður nýrrar bæjarstjórnar, skipulags- og byggingarráðs og hafnarstjórnar. Kjörnir fulltrúar þurfa að setja sig vel inn í þessi stóru mál og sjá til þess að þessum skipulagsmálum sé fylgt vel eftir, að vandað verði til verka og kynnt vel fyrir íbúum og fyrirtækjum. Nái þessar tillögur og hugmyndir allar fram að ganga munum við sjá stórkostlegar og jákvæðar breytingar á fallega og áhugaverða bænum okkar næstu árin og áratugina. Það er eftirsóknarvert að búa í Hafnarfirði og mun verða enn frekar á næstu árum og áratugum.


Leave a comment

Hamraneslínur

Fjarðarpósturinn 6. apríl 2018

ánheitis

Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 21. júní 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1. Niðurstaða nefndarinnar eru mikil vonbrigði fyrir okkur sem höfum unnið að málinu á kjörtímabilinu og ekki síður fyrir íbúa á Völlum sem í mjög langan tíma hafa ítrekað verið lofað í mjög langan tíma að Hamraneslínurnar verði fjarlægðar.

Ferlið

Árið 2006 var farið að ræða um niðurrif línanna. Við stækkun álversins í Straumsvík 2007 ætlaði álverið að sjá um að setja línur í jörð næst byggð, niðurstaða íbúakosningar um stækkun álversins sló þá hugmynd út af borðinu. Árið 2009 var undirritað samkomulag við Landsnet um lagningu á nýrri línu, Lyklafellslínu (Sandskeiðslínu 1) og niðurrif Hamraneslínu. Ferlið átti að hefjast árið 2011 og enda á þessu ári. Ekkert varð af þessum áformum. Í október 2012 var undirritaður (mjög óljós) viðauki við samkomulagið frá 2009 um að Hamraneslínur yrðu fjarlægðar í síðasta lagi 2020. Í upphafi þessa kjörtímabils var farið í viðræður við Landsnet um niðurrif línanna. Hafnarfjarðarbær átti mjög gott samstarf við íbúasamtök Valla í þessari vinnu sem skilaði niðurstöðu með samkomulagi og var undirritað í júlí 2015. Í samkomulaginu fólst m.a. að ný lína, Lyklafellslína yrði lögð, Hamraneslínur fjarlægðar og Ísallína færð fjær byggð. Ferlinu átti að ljúka á þessu ári. Fyrirvari er í samkomulaginu sem er „force majure“ leyfisveitingar, niðurstaða í kæruferlum eða dómsmálum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti svo framkvæmdaleyfi þann 21. júní 2017, sama hafa Garðabær, Kópavogur og Mosfellsbær gert.

Skipulagið og næstu skref

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og í gildandi Aðalskipulagi 2013-2025 er gert ráð fyrir Lyklafellslínu. Línan er í samræmi við Svæðiskipulag höfuðborgarsvæðisins, sama er um Aðalskipulag sveitarfélaganna þar sem línan liggur um. Hafnfirðingum og þá sér í lagi íbúum á Völlum hefur verið lofað í 9-10 ár að Hamraneslínur yrðu fjarlægðar. Landsnet þarf að svara með hvaða hætti þetta verður gert. Viðræður eru í gangi við Skipulagsstofnum um næstu skref og fljótlega ætti að koma í ljós tímaramminn um framhaldið. Í samkomulaginu frá 2015 er ákvæði um færslu línanna frá byggð kæmi þessi staða upp, sá möguleiki hefur nú þegar verið ræddur við Landsnet. Einnig hefur verið rætt um að leggja hluta línanna í jörð sambærilegt og Hnoðraholtslína 1 sem liggur frá Hamranesi, útfærslan þarfnast m.a. samþykki Orkustofnunnar. Hafnarfjarðarbær mun halda áfram að þrýsta á Landsnet um efndir á samkomulagi um niðurrif Hamraneslína og færslu Ísallína.


Leave a comment

Trjágróður í byggð

Trágróður yfir gangstétt

Hver er stefna Hafnarfjarðarbæjar í trjárækt? Aspir og greni eru víða, tré sem voru lítil og sæt þegar þeim var plantað en eru nú víða 8-10 metra há. Auðvitað er það svo að trjágróður í fullum skrúða er okkur öllum til yndisauka, en er það svo alls staðar? Byggingarreglugerð frá árinu 2012 tekur á hvernig trjágróðri er komið fyrir á lóðarmörkum, fjallað er um skuggavarp og að hávöxnum trjátegundum skuli ekki plantað nær lóðarmörkum en 4,0 metrum. Samkvæmt byggingareglugerðinni er lóðarhafa skylt að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka. Mjög víða vaxa tré og runnar langt út yfir gangstíga og götur, okkur öllum til ama.

Trjáræktarstefna

Nokkur sveitarfélög sett sér stefnu um trjárækt í þéttbýli. Reglurnar eru fyrst og fremst leiðbeinandi fyrir sveitarfélagið, íbúa og fyrirtæki um á hvern hátt trjárækt í þéttbýli skuli háttað og í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Hafnarfjörður hefur ekki sett sér slíkar reglur. Ef skoðað er niðursetning trjáa á bæjarlandinu síðustu árin og áratugina sést að aspir, greni, lággróður og aðrar trjátegundir hafa verið settar niður án þess að endanleg útkoma hafi verið ígrunduð. Niðurstaðan er alls ekki góð. Háar aspir og greni skyggja á garða og útsýni, eru skuggavaldandi og lággróður safnar í sig órækt. Má nefna mjög háar aspir á Strandgötu, óræktina við Hvammabraut, Hamarinn er að drukkna í sjálfsprottnu greni og lággróður safnar í sig órækt mjög víða í bænum.

Aðgerðir

Gróður þarfnast umhirðu og því þarf að gróðursetja samkvæmt því. Þó svo að tré sem voru sett niður áður en núgildandi byggingarreglugerð tók gildi ætti Hafnarfjarðarbær að tileinka sér ákvæði byggingarreglugerðar og fella tré sem ekki falla að reglugerðinni, þar má nefna Strandgötu, Hvammabraut, Hamarinn o.fl. staði. Hafnarfjarðarbær þarf í samráði við íbúa að setja sér stefnu í trjárækt þar sem við öll getum verið sátt við trjágróðurinn í bænum sem vissulega í flestum tilfellum prýðir, veitir skjól og er okkur öllum til yndisauka. Að lokum, hugum að nærumhverfi okkar, öll saman getum við gert bæinn okkar enn fegurri.


Leave a comment

Verum áfram samferða

Kjörtímabilinu sem senn líkur hefur verið jákvætt og uppbyggilegt fyrir okkur Hafnfirðinga. Í upphafi kjörtímabilsins var farið í umfangsmikla úttekt á rekstri bæjarins. Í kjölfarið var ráðist í hagræðingaraðgerðir og endurskipulagningu á rekstrinum sem hefur skilað verulegum ábata fyrir okkur öll án þess að skerða þjónustu við bæjarbúa, þvert á móti skiluðu aðgerðir okkar aukinni þjónustu og lægri álögum til Hafnfirðinga og hafnfirska fyrirtækja.

Á réttri braut

Á síðastu tveimur árum hefur Hafnarfjarðarbær framkvæmt fyrir eigið fé og er af nógu að taka þegar kemur að framkvæmdum kemur. Meðal annars var leikskóli byggður á Völlum og glæsilegt íþróttahús tekið í notkun á Ásvöllum. Skuldir hafa verið greiddar niður og er skuldaviðmið bæjarins nú komið í 138% en var 170% í upphafi kjörtímabilsins, við erum því laus undan eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og því fjárhagslega sjálfstætt sveitarfélag. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir áfram á sömu braut, við munum halda áfram að lækka skuldir, framkvæma fyrir eigið fé, lækka álölur og auka þjónustu.

Umboð áfram til góðra verka.

Framundan eru mikilvægar kosningar sem snúast um hvort haldið verði áfram á sömu braut með ábyrgri fjármálastjórn, áframhaldandi uppbyggingu, lægri álögum og aukinni þjónustu, eða hvort horfið verði í gamla vinstra farið með skuldasöfnun og auknum álögögum á íbúa og fyrirtæki. Sjálfstæðisflokkurinn teflir fram samhentum hópi einstaklinga sem hafa áhugan, reynsluna og umfram allt eru samstíga í að vinna vel fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Á næsta kjörtímabili óska ég þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram samferða ykkur í áframhaldandi uppbyggingu og framförum okkur öllum til heilla.


Leave a comment

Ég hef haft tíma fyrir Hafnarfjörð.

Fjarðarpósturinn 8. mars. 2018

Fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins vorið 2014 sagðist ég hafa tíma fyrir Hafnarfjörð, í þessu fólst að næði ég kjöri sem bæjarfulltrúi gæfi ég mér allan þann tíma sem þyrfti sem kjörinn fulltrúi Hafnfirðinga í málefni Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga. Allt þetta kjörtímabil hef ég haft það að aðalstarfi að vera fulltrúi ykkar. Nái ég árangri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og í sveitarstjórnarkosningunum mun ég áfram hafa tíma fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga.

Samheldni og áræðni.

Niðurstaða síðasta prófkjörs Sjálfstæðisflokksins skilaði samheldnum hópi einstaklinga sem hafði og hefur það eitt að markmiði að vinna vel fyrir bæinn sinn, bæta hag íbúa, unga sem aldna. Það hafa verið forréttindi að vinna með þessum einstaklingum sem hafa gefið allt sitt og rúmlega það í þá vinnu sem beið okkar sem bæjarfulltrúar í nýjum meirihluta. Með áræðni hefur okkur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við Bjarta Framtíð tekist að bæta hag bæjarins og þar með íbúa svo eftir er tekið.

Í ykkar höndum

Nú líður að prófkjöri, þar mun ráðast röðun á lista Sjálfstæðisflokksins. Ég er þess fullviss að niðurstaða prófkjörsins verður jákvæð fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem hæfileikaríkir einstaklingar berjast um efstu sætin. Hvað mig varðar þá legg ég störf mín í ykkar hendur kjósendur góðir. Ég er formaður skipulags- byggingarráðs og er í hafnarstjórn. Ég fylgi málum eftir og reyni eftir bestu getu að leysa úr erindum sem mér berast. Ég hvet alla að mæta og taka þátt í prófkjörinu þann 10. mars. Jafnframt bendi ég á heimasíðu mína www.ingitomasson.is þar sem má finna fjölmargar greinar sem ég hef skrifað.

Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi. Sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

 


Leave a comment

Samfylkingin skilar auðu í málefnalegri umræðu.

Fjarðarfréttir 22. febrúar 2018.

Grein eftir Friðþjóf Helga Karlsson, varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar vakti athygli mína. Þar sem varabæjarfulltrúinn fer fram á ritvöllinn með fullyrðingar sem ekki standast vil ég að eftirfarandi komi fram.

Óbyggt árið 2014.

Við upphaf yfirstandandi kjörtímabils voru fyrir utan lóðir í Skarðshlíð eitthvað um 500 – 600 óbyggðar íbúðir eða íbúðir í byggingu víðs vegar í bænum, nægir þar að nefna Norðurbakkann, Skipalónið og Vellina. Síðustu lóðunum á Völlum 6 var úthlutað á síðasta ári og enn er verið að byggja fjölbýli á lóðum sem var úthlutað á árunum 2005-6. Árleg þörf á íbúðum í Hafnarfirði er um 200 miðað við meðaltalsfjölgun íbúa síðustu 13 ára. Með þessar upplýsingar var farið í að endurskoða skipulag Skarðhlíðar.

Skarðshlíð.

Skipulag Skarðshlíðar (Vellir 7) var upphaflega samþykkt árið 2007, breytt aftur árið 2013. Við upphaf kjörtímabils á miðju ári 2014 sátum við uppi með lóðir og skipulag sem ekki hafði vakið áhuga til uppbyggingar. Skipulagi var breytt til að bregðast við breyttum áherslum um minni íbúðir og hagkvæmari sérbýli. Í fyrsta áfanga voru úthlutaðar 241 íbúð í fjölbýli, í öðrum áfanga eru 165 lóð í sérbýli sem flestar voru auglýstar til úthlutunar á síðasta ári. Þriðji áfangi um 120 íbúðir verða auglýstar þegar við sjáum fram á að Hamraneslínurnar verða teknar niður, en það er önnur löng saga.

Skipulag til framtíðar.

Skipulagsvinna í Hamranesi lofar góðu þar verður fjölbreytt byggð fyrir allt að 2000 íbúa á öllum aldri. Nokkrir reitir eru í vinnslu misjafnlega langt komnir má þar nefna Suðurgötu 44, gamla Kató sem verður breytt í íbúðir og á Dvergsreitnum er gert ráð fyrir um 20 íbúðum. Svo er það stóra málið sem Friðþjófur nefnir, „tækifæri til þéttingar og endurskipulagningu byggðar m.a. á Hraununum“. Telur hann að við séum að draga lappirnar í að vinna að nýju skipulagi á því svæði. Við í meirihluta bæjarstjórnar samþykktum að faglegur starfshópur yrði fengin til að meta tækifæri til þéttingar byggðar, hópurinn skilaði góðri skýrslu ásamt því að haldinn var kynningarfundur og sýning í Hafnarborg um niðurstöðuna. Í framhaldinu var ákveðið að ráðast í endurskipulagningu á iðnaðarsvæðinu á „Hraunum“ um 30ha svæði. Upphaf þess máls var í febrúar 2016, skipulagslýsing var samþykkt, samkeppni um skipulagið var haldin, kynningarfundir hafa verið haldnir og tvær arkitektastofur voru ráðnar til verksins. Þess má geta að Vogabyggðin í Rvk. sem er sambærilegt verkefni hefur verið í vinnslu frá árinu 2012 og ekki er enn hafin uppbygging þar. Á næstu dögum verður kynningarfundur um rammaskipulag svæðisins þar sem kynntar verða hugmyndir að skipulagi fyrir allt að 2300 íbúðir ásamt verslun og þjónustu, stutt er í skipulagið klárist og í framhaldinu geta lóðarhafar byrjað deiliskipulagsvinnu og framkvæmdir. Þar sem varabæjarfulltrúinn nefnir fjölda íbúða í Rvk. til úthlutunar á síðasta ári þá má nefna að íbúum í Hafnarfirði fjölgaði á síðustu tveimur árum um 5,6% á meðan íbúum í Rvk. fjölgaði um 3,5%. Það er margt jákvætt og spennandi að gerast í skiplagsmálum hjá okkur Hafnfirðingum og miður að fulltrúar Samfylkingarinnar skuli finna sig sífellt knúna til að tala sveitarfélagið okkar niður.


Leave a comment

Gott að eldast – í Hafnarfirði

Fjarðarfréttir 1. feb. 2018

Húsfyllir var á kynningarfundi um heilsueflingu eldri borgara í Hafnarfirði í síðustu viku þar sem kynnt var dagskrá byggð á samstarfssamningi um heilsueflingu allt að 160 íbúa Hafnarfjarðarbæjar 65 ára og eldri sem var undirritaður af bæjarstjóra Hafnarfjarðar og Janusi Guðlaugssyni þann 4. janúar sl. Með samningnum sem er liður í áherslu Hafnarfjarðarbæjar um heilsusamlegt samfélag er verið að hvetja eldri borgara til hreyfingar og hollra lífshátta sem leiðir til betri lífsgæða.

eldr

Íþrótta- og tómstundastyrkir

Á þessu ári hækkuðu íþrótta- og tómstundastyrkir til 67 ára og eldri úr kr. 1.700 í kr. 4.000 á mánuði og verða því alls kr. 48.000 á ári. Með þessu var ákveðið að styrkirnir fylgi framvegis þróun frístundastyrkja fyrir börn og ungmenni og er til þess fallinn að hvetja til hreyfingar, bæta líðan og lífsgæði eldri borgara. Á heimasíðu Landssambands eldri borgara kemur fram að samkvæmt lauslegri athugun er ekki sambærilegur stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf eldri borgara í öðrum sveitarfélögum. Auk þessa er frítt í sund fyrir 67 ára og eldri.

Og svo margt fleira.

Mikilvægt skref í að eldri borgurum og öryrkjum sé gert kleift að búa í eigin húsnæði var stigið með samþykkt í nýrri fjárhagsáætlun um stóraukinn tekjutengdan aflsátt á fasteignaskatti. Tekjuviðmið einstaklinga sem fá 100% afslátt af fasteignaskatti hafa hækkað á kjörtímabilinu úr kr. 2.600.000 í kr. 5.013.000, tekjuviðmið hjóna/fólks í skráðri sambúð hafa hækkað á sama tíma úr kr. 3.630.000 í kr. 6.405.500, nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar. Hafnarfjarðar bær rekur þrjár félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara, þær eru Hraunsel við Flatarhraun, þar fer fram öflugt starf Félags eldri borgara í Hafnarfirði, á Hjallabraut 33 og Sólvangsvegi 1 er fjölbreytt þjónusta og tómstundir, þar er einnig hádegismatur í boði gegn vægu gjaldi. Félagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar sér um margs konar þjónustu við eldri borgara sem vert er að kynna sér. Það er af nógu jákvæðu að taka í málefnum eldri borgara í Hafnarfirði. Hvet ég alla sem komnir eru á efri ár að nýta sér þá þjónustu og afþreyingu sem er í boði.

 

 

 

 


Leave a comment

Umtalsverð lækkun fasteignagjalda.

Fjarðarpósturinn 1. des. 2017.

Hafnarfjörður

Í upphafi núverandi kjörtímabils var það eitt fyrsta verk Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar að fá óháða aðila til að taka út rekstur sveitarfélagsins og koma með tillögur til hagræðingar og aukinnar skilvirkni og þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Sú vinna hefur leitt til verulegs viðsnúnings í fjármálum bæjarins og í kjölfarið bættrar þjónustu og hægt hefur verið að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki í Hafnarfirði.

Útsvar og fasteignagjöld

Útsvarsprósentan var lækkuð í fyrra og varð í fyrsta sinn ekki í því hámarki sem leyfilegt er og er nú 14.48%. Við samanburð á fasteignagjöldum þarf að taka tillit til allra gjalda sem fasteignaeigendur greiða til bæjarins. Þar inni eru: fasteignaskattur, vatnsgjald, holræsagjald og lóðarleiga. Á síðasta ári var töluverð hækkun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis eða 14,8%. Meirihluti bæjarstjórnar ákvað að miða álagningu á íbúðarhúsnæði við vísitöluhækkun, heildartekjur bæjarins vegna fasteignagjalda af íbúðarhúsnæði aukast því aðeins um 130 milljónir í stað 400 milljóna ef álagningaprósenta fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði hefði verið óbreytt. Fyrirtæki njóta einnig verulega betri fjárhagsstöðu bæjarins, í fyrsta skipti í mjög mörg ár lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði, úr 1,65% í 1,57%,  hækkun milli ára nemur um 92 milljónum króna en hefði numið 190 milljónum króna ef álögur hefðu haldist óbreyttar.

Eldri borgarar og örorkulífeyrisþegar

Núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur unnið markvist að því að bæta kjör eldri borgara og örorkulífeyrisþega, mikilvæg er að þeim sem njóta elli- eða örorkubóta sé gert kleift að búa í eigin húsnæði án íþyngjandi gjalda. Nú aukum við tekjutengdan afslátt fasteignaskatts til þessara aðila verulega eða sem nemur um 30% hækkun umfram 11,4% hækkun launavísitölu. Samkvæmt þessu er hækkun tekjutengds afsláttar allt að 67% og munar um minna.  Árið 2014 var afslátturinn í heild 33 milljónir, á næsta ári verður afslátturinn 89 milljónir af álögðum fasteignaskatti. Við í meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar erum stolt af verkum okkar og því að geta bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega.

Hér sést breyting á afslætti á tekjutengdum fasteignaskatti fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

mynd-með-grein-Inga-T

 


Leave a comment

Umhverfið í forgang.

Fjarðarpósturinn 29. sept. 2017.

Umhverfið

Umhverfið er okkur öllum hugleikið. Flest viljum við hafa hreint og snyrtilegt í námunda við okkar nánasta umhverfi og á þeim stöðum sem við förum til að njóta útivistar og snertingu við náttúruna. Það er ekkert sjálfgefið að finna hreint og tært umhverfi eins og t.d. í upplandi Hafnarfjarðar þar sem margir hafa lagt hönd á plóg með bættu aðgengi að náttúrperlum upplandsins ásamt því að auka vitund almennings að bættri umgengni um náttúruna.

Iðnaðarsvæðin

Frá því að undirritaður og Rósa Guðbjartsdóttir lögðum fram  tillögu í ágúst árið 2010 í skipulags- og byggingarráði um „Átak í hreinsun iðnaðarsvæða á Hraunum og Hellnahraunum.“ hefur verið farið í hreinsunarátak á iðnaðarsvæðum bæjarins á hverju ári til þessa, og nú er hreinsað til á iðnaðarsvæðum bæjarins dagana 15. september til 6. október. Það varðar okkur öll að umhverfið sé með þeim hætti að okkur líði vel hvar sem við erum stödd, það á jafnt við um upplandið, útivistarsvæðin og íbúðar- og iðnaðarhverfin. Það er langt í land með að mörg  fyrirtæki og einstaklingar sem eiga athafna- og iðnaðarlóðir séu meðvitaðir um mikilvægi þess að setja umhverfið í forgang. Vissulega eru mörg fyrirtæki til fyrirmyndar í umhverfismálum en hin sem lítinn skilning hafa á mikilvægi þess að hafa snyrtilegt við sitt nánasta umhverfi skyggja á það sem vel er gert.

Hagur allra

Hafnarfjarðarbær hefur aukið verulega fjármagn til umhverfismála og stefnt er á að gefa betur í enda næg verkefni í þeim málaflokki. Íbúar sem eru langflestir til fyrirmyndar í þessum málum tóku virkan þátt í hreinsunarátaki sl. vor, og nú er einblínt á iðnaðarsvæðin. Það er hagur allra að umhverfið sé aðlaðandi, að við öll göngum vel um bæinn og náttúruna, iðnaðar- og þjónustuhverfin eru engin undantekning frá því. Ég hvet forsvarsmenn fyrirtækja og lóðarhafa á iðnaðarsvæðum bæjarins að taka virkann þátt í umhverfisátakinu sem nú stendur yfir.


Leave a comment

Skipulag Fornubúða 5.

Fjarðarpósturinn 21. sept. 2017.

Fornubúðir 5

Fulltrúar minnihlutans í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar (SBH), þau Júlíus Andri Þórðarson, VG og Eva Lín Vilhjálmsdóttir, Samfylkingunni (S) skrifa grein í Fjarðarpóstinn undir heitinu „Skipulagsslys í uppsiglingu við Flensborgarhöfn?“  Þar lýsa þau yfir að núverandi tillaga verði ekki samþykkt af minnihlutanum.

Skipulagsferlið

Haldið skal til haga að fjórar tillögur um útlit byggingarinnar hafa verið kynntar í SBH og hafnarstjórn. Fyrsta tillagan var kynnt þann 23. ágúst 2016, á þeim fundi sátu fyrir hönd minnihlutans Júlíus Andri Þórðarson, VG og Ófeigur Friðriksson, S. Á þeim fundi var fyrst kynnt uppbygging vegna Hafró að Fornubúðum 5, kom fram að byggingin yrði 5-6 hæðir. Allir fulltrúar, þ.m.t. fulltrúar minnihlutans, tóku jákvætt í erindið. Næst kom málið á dagskrá SBH þann 24. jan. sl. þar sátu fyrir hönd minnihlutans, Júlíus Andri Þórðarson, VG og Óskar Steinn Ómarsson, S. Lögð var fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu ásamt útlitsteikningum sem gáfu mynd af því sem þarna gæti komið. Gert var ráð fyrir 5 hæðum, hámarkshæð og byggingarmagn tilgreint. SBH þ.m.t. fulltrúar minnihlutans samþykktu að deiliskipulagsbreytingin yrði auglýst. Þann 25. apríl sl. var sama tillaga á dagskrá SBH. Þar sátu fyrir hönd minnihlutans þau Júlíus Andri Þórðarson, VG og Eva Lín Vilhjálmsdóttir, S. Ein athugasemd hafði borist og samþykktu allir fulltrúar SBH umsögn skipulagsfulltrúa og fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fornubúða 5. Lagt var til að  bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti breytt deiliskipulag. Samkvæmt því sem hér er rakið hefur ríkt full samstaða um skipulagsbreytinguna í SBH. Þriðja tillagan að útliti, sú sama og sýnd með áðurnefndri grein var kynnt í SBH þann 24.8. sl. Óskað var eftir breyttri útfærslu á byggingunni og var fjórða tillagan kynnt SBH þann 19.9. sl. Aukið uppbrot á byggingunni er frá fyrri tillögu og hámarkshæð 1,2 metrum undir samþykktu deiliskipulagi.

Ábyrg afstaða?

Það er e.t.v. til of mikils ætlast af fulltrúum minnihlutans að taka ábyrga afstöðu sem kjörnir fulltrúar, en þegar sömu fulltrúar eru búnir að taka jákvætt í og samþykkja í öllum ferli skipulagsins þar sem teikningar eru lagðar fram til skýringa verður að segjast eins og er að greinarskrif þeirra er í hrópandi ósamræmi við aðkomu minnihlutans í SBH að málinu. Feril málsins má sjá í fundargerðum SBH á heimasíðu Hafnarfjarðar.